Thursday, October 30, 2014

Temmilegt kæruleysi


Frá því að ég man eftir mér hef ég verið með mjög mikið keppnisskap. 

Sem barn og unglingur æfði ég frjálsar íþróttir. Einstaklingsíþrótt þar sem auðveldlega getur lagst mikil pressa, og þar af leiðandi kvíði, á einstaklinginn. 
Frjálsar lágu vel fyrir mér og ég vann til fjölda verðlauna frá 10-18 ára aldurs. Ég var valin íþróttakona Mosfellsbæjar, tók þátt í Ólympíuhátíð æskunnar, fór á norðurlandarmót í fimmtaþraut og fleira. Þetta var frábær tími þar sem ég þroskaðist mikið og lærði heilmargt. En ég var nánast alltaf stressuð og setti óþarfa pressu og kröfur á sjálfa mig. 
Fyrir mót leið mér eins og ég þyrfti að vinna því ég hafði jú unnið sama mót í fyrra og ég gæti alls ekki tapað núna. Eða ég hafði unnið stelpuna sem var við hliðin á mér í rásblokkinni á síðasta móti og það yrði hlegið að mér ef ég myndi tapa núna. Þessar og fleiri hugsanir voru mér ómeðvitað alltaf til staðar, og nú þegar ég er orðin eldri (og vonandi vitrari) vil ég forðast þetta neikvæða niðurbrot.

18 ára gömul hætti ég í frjálsum. Aðalega vegna þess að ég höndlaði ekki þá pressu sem ég, og aðeins ég, setti sífellt á sjálfa mig. Loksins gat ég andað léttar, borðað nammi í afmælum (af því það voru ekki lengur x-vikur í mót), farið í bíó á fimmtudegi í staðinn fyrir að mæta á æfingar og almennt bara slappað aðeins af.

Ég gat þó ekki setið hreyfingarlaus lengi og fór fljótlega í boot camp og svo þaðan í kettelbells og Mjölni þar sem ég ílengdist. 

Í Mjölni fann ég mig vel í þrek og styrktartímum þar sem mikið var unnið með ketilbjöllur og eigin líkamsþyngd. Ég gat keppt við sjálfa mig og næsta mann við hliðin á mér á æfingum en hið lýjandi mótastress sem hafði hangið yfir mér í frjálsum var ekki til staðar.
Ég prófaði fljótlega box og brazilian jiu jitsu en fann strax að þegar ég færði mig út í meiri keppnisíþróttir vaknaði stressið og pressan sem ég setti á sjálfa mig fljótt upp aftur. Ég held að það hafi verið ein meginástæða þess að ég toldi ekki lengi í íþróttunum og leitaði alltaf aftur í þrekið. 

Í ágúst á þessu ári ákvað ég að byrja æfa BJJ með öðru hugafari. Ég hafði tekið fjórar tarnir þar sem ég hafði æft sportið í nokkrar vikur til mánuði en hætt vegna þess að ef ég hafði ekki tíma til að æfa eins oft í viku og þeir metnaðarfyllstu þá gæti ég alveg eins sleppt því. Ef ég gat ekki orðið best strax gat ég alveg eins sleppt því að vera með. 

Sem betur fer áttaði ég mig á því hvað hausinn var að fara illa með mig. Í dag bý ég á Akureyri og æfi í Fenri þar sem ég mæti á æfingar með það hugafar að ég sé einungis að gera þetta fyrir sjálfa mig, til að hafa gaman af, kynnast skemmtilegu fólki og smám saman verða betri. Inn á milli munu svo dúkka upp mót sem ég get tekið þátt í en ég ætla passa mig á því að hafa gleðina alltaf í fyrirrúmi. Það er gaman að ganga vel á mótum, og uppskera eins og maður hefur sáð, en ég ætla forðast það að fara inn í keppnir með fyrirfram ákveðnar hugmyndir um það hvernig mér eigi að ganga eða hversu langt ég eigi að komast. Þetta er jú fyrst og fremst fyrir sjálfa mig og það gæti ekki skipt aðra minna máli hvar ég enda í röðinni. Ég þarf og ætla að minna sjálfa mig á þetta reglulega til að tapa mér ekki í kvíða og óþarfa stressi.


Til allra sem eiga við keppnisstress og kvíða að stríða (rím!) : Öndum djúpt, brosum og munum að það eru allir að spá í sjálfum sér. Ekki þér. Tökum þátt og höfum gaman af :) 



'Oss'


Ath. ofangreindur penni er ekki menntaður á sviði 
íþróttasálfræði og skrifar einungis út frá persónulegri reynslu.
Engin dýr voru sköðuð við ritun þessa bloggs.


Monday, October 27, 2014

BJJ - & búkhljóðin

Að æfa brazilian jiu jitsu er fáránlega gaman! Snertingin er mikil, sportið er hart en á sama tíma svo mjúkt og flæðandi. Þú kynnist æfingarfélögunum vel – og stundum jafnvel betur en þú hefðir kosið þér. Að æfa BJJ veldur því að þú verður mjööög náin fólkinu sem þú æfir með.

Hver hefur ekki lent í þessum æfingafélögum; gaurnum sem á það til að prumpa þegar einhver nær honum í side control, gæjinn sem var nýbúinn að fá sér hvítlauksbrauð, með dass af hvítlauksolíu, fyrir æfingu. Æfingafélaginn sem er búin að vera með bilaða þvottavél í 3 vikur, æfingafélaginn með síðu táneglurnar, klepraða hárið og svo lengi mætti telja.
Ég hef gerst sek um nokkra af ofantöldum hlutum. Þá sérstaklega óvelkomna prumpið. Það læðist mjög oft út. Sérstaklega þegar ég ligg í side control eða er 'mountuð', svo ef ég væri þið myndi ég helst bara láta það vera að ná mér í þessar stöður. Ég gæti prumpað á ykkur.

Elskum að æfa og fögnum hinum mannlegu búkhljóðum.


E.s. ef þvottavélin ykkar bilar megið þið alltaf koma og þvo GI-in ykkar hjá okkur Jóa. Og við eigum líka naglaklippur. Tvær meira segja.

E.e.s. Hér eru nokkrar fínar leiðir til að gera hvíta GI-ið sem er orðið hálfgrátt hvítt aftur.
http://www.bjjproblems.net

'Oss'

Thursday, October 23, 2014

Brennimerking í Fenri


Í kvöld fór fram 'brennimerking' í Fenri. Brennimerking felur í sér að iðkendur sem unnið hafa sér inn strípur eða belti eru gráðaðir upp af þjálfurum.

Tæplega 40 manns mættu á æfinguna, glímdu og fengu margir hverjir strípu eða belti.
Þrír hvítbeltingar fengu blá belti: Villi, Danni og Einar. Hrikalega flottur árangur og skemmtileg tímamót fyrir strákana. Til hamingju allir!:)

 Braveheart leikurinn í fullum gangi.
Jói og Ingþór fylgjast glöggt með.

 Bjarni á berst fyrir strípum á beltið sitt.

  Fenrisynjur 

 Hamingja

Sátt & sæl með strípurnar mínar


Frábæri Fenrishópurinn!
Öflugur hópur og enn betri mórall:)

'Oss'

Sunday, October 19, 2014

BJJ hárgreiðslur


Fyrir rúmlega 3 mánuðum byrjaði ég að æfa Brazilian Jiu Jitsu af fullum krafti. 
Frá því að ég fór á byrjendanámskeið fyrir að verða 4 árum hef ég aldrei náð að æfa nema í nokkrar vikur og svo dottið í löng löng hlé á milli. En nú er ég 'all in'. Mig er farið að dreyma glímur og í frítíma mínum nördast ég á youtube. Og ég elska það. 


En eins og eflaust flestar stelpur sem æfa BJJ er ég í sífelldum vandræðum með hárið á mér á æfingum. Ég hef prófað ýmsar greiðslur og trix en flest allt virðist detta úr eftir nokkrar glímur (sérstaklega ef maður liggur undir í mount eða side control) og hárið á það til að festast undir hnjám andstæðinganna eða á milli í hengingum. Sem er ekki mjög þægilegt.  

Það eru þó nokkrar greiðslur sem haldast betur en aðrar: 




Klassísk föst flétta með smá twisti. Töff og helst vel. 


Margar litlar fastar fléttur. 
Tímafrekt en upplagt fyrir mót.


Á Grettismóti Mjölnis í september var ég með tvö fasta snúða,
svoldið í anda Leiu, prinsessu úr Starwars.
Þeir héldust fáránlega vel og ég hugsa að
þessi greiðsla verði aftur fyrir valinu á næsta móti.

Föstu flétturnar eru helst til tímafrekar. Oftar en ekki hendi ég hárinu bara í tagl með fléttu eða snúð. Nýlega hef ég svo verið að rokka nýja NikePro hárbandinu mínu á æfingum og hárið hefur lítið verið að trufla mig. Hárbandið er þykkt og með gúmmírönd undir sem gerir það að verkum að hárbandið helst vel á. Mæli með þessu fyrir allar BJJ stelpur...stráka og aðra íþróttagarpa:)



Hér er svo að finna link á facebook þar sem teknar hafa verið saman sniðugar BJJ hárgreiðslur fyrir stelpur: facebook bjj hár.

'Oss'