Thursday, January 8, 2015

Streptókokkasýking & Pollýönnu leikur

Nú styttist óðum í Evrópumeistaramótið í BJJ sem haldið er á vegum IBJJF samtakanna. Mótið verður haldið í Lisbon, Portúgal, dagana 21-25.janúar og ég er ekki frá því að spenningurinn sé að hellast yfir mig. 

Við Jóhann vorum þó svo óheppin að ná okkur í einhverja ands****** flensu svona rétt fyrir mót. Ég fór og lét kíkja á mig í gær og það kom í ljós að ég er með streptókokkasýkingu í hálsi - þann leiða fjanda. 


Streptókokkasýking 10 dögum fyrir mót er kannski ekki það sem ég hefði kosið mér. En 'it is what is it', og ég verð bara að tækla það. Ég ákvað að taka Pollýönnu á þetta og líta á björtu hliðarnar. Ég sé tvo góða punkta við þetta ástand. Í fyrsta lagi gefst líkamanum nú tími til að hvíla vöðva og liðamót þar sem ég get ekki mætt á æfingar. Líkaminn tekur þessari hvíld eflaust fagnandi þar sem það er auðvelt að detta í þá gryfju að æfa of stíft stuttu fyrir mót. 
Í öðru lagi hafði ég verið að spá í hvort ég gæti 'cuttað' eða skorið niður fyrir mótið og keppt í næsta þyngdarflokk fyrir neðan. Ég var svoldið skeptíst á að ná því og er almennt ekki mjög hrifin af niðurskurði. Hinsvegar hefur slappleikinn gert það að verkum að matarlystin hefur verið lítil og eins er vont að kyngja svo ég hef mest drukkið eða borðað fljótandi fæðu. Upplagt fyrir þyngdartap! Hver veit nema ég skrái mig í þyngdarflokkinn fyrir neðan þökk sé Herra Streptó.

 Já Pollý-Brynja er að reyna af fullum krafti að sjá bara það jákvæða. Hitt er svo niðurdrepandi og leiðinlegt.


Næstu daga ætla ég að bryðja sýklalyf, drekka te, sjúga strepsils, hafa klút um hálsinn, vera í hlýjum sokkum, drekka engiferskot, almennt fara vel með mig og sigra þennan fjanda.
10 dagar í mót og ég verð klár í slaginn. Lisabon hér kem ég! 


http://ibjjf.org/championship/european-open-jiu-jitsu-championship/

Ó sú fegurð.

Friday, January 2, 2015

Draumaplagg 2015


Ég rakst á mjög skemmtilega hugmynd á bloggsíðu stelpu sem vinnur með mér eða hugmynd að svokölluð draumaplaggi (e.visionboard). (sjá blogg hér).
Mér finnst þetta mjög sniðug leið til að hafa markmiðin mín og gildi myndræn, og þannig vonandi muna frekar eftir því sem skiptir mig máli. Því ég, eins og eflaust fleiri, á það til að gleyma því í asa hversdagsins.  

Markmið mín á árinu felast m.a í því að...
Leggja fyrir  
Huga enn betur að líkama og sál
Fara út, njóta náttúrunnar og sjá nýja hluti
Leggja rækt við núvitund (e.mindfulness)
Og almennt vera hamingjusöm :)

Áfram 2015
Ég er til í slaginn! 


Friday, December 19, 2014

Blátt lítið ljóð




Eftir æfingu kvöldsins ég brosi breitt, 
þakklát, þreytt og ekki síst sveitt. 
Í upphafi sagt: "uppskerð eins og þú sáir,
hver veit nema einn dag nýtt belti fáir".

Eftir stífar æfingar, hengingar og tök, 
get ég nú glímt og verið slök.
Á mottunum finn fyrir styrk, gleði og spennu, 
fátt jafnast á við þessa yndislegu þrennu. 

Í kvöld mér að óvöru á gólfið var sett, 
-glímuandstæðingarnir komu þétt. 
Um mig miðja sensei Ingþór svo batt, 
BLÁTT  fallegt belti, vel og hratt.  








Monday, December 1, 2014

Íslandsmeistarmót BJJ 2014

Síðastliðna helgi, 23.nóvember, tók ég þátt á mínu fyrsta Íslandsmeistarmóti í brasilísku jiu jitsu og skemmti mér konunglega! Fenrir sendi 11 iðkendur á mótið og stemningin í hópnum var mjög góð. 

Hér eru nokkrar myndir frá mótsdeginum

 Jói hampaði silfri í -94,3kg flokki kk

Gleði eftir sigur í opnum flokki kvk
Ljósmyndari: Örn Arnar Jónsson 


 Ánægðir liðsfélagar eftir góða glímu

Herramaðurinn á myndunum er án ef einn besti stuðningsmaður sem hægt er að hugsa sér


MMA fréttir birtu hér stutt viðtal við mig eftir mót. 

Næst á dagskrá er Evrópumeistaramótið í Lisbon, Portúgal, 21.janúar. Spennandi!
Eins og undanfarið mun mantran mín einkennast af þessum lykilorðum:
Engin pressa & gleðin í fyrirrúmi :)




Thursday, October 30, 2014

Temmilegt kæruleysi


Frá því að ég man eftir mér hef ég verið með mjög mikið keppnisskap. 

Sem barn og unglingur æfði ég frjálsar íþróttir. Einstaklingsíþrótt þar sem auðveldlega getur lagst mikil pressa, og þar af leiðandi kvíði, á einstaklinginn. 
Frjálsar lágu vel fyrir mér og ég vann til fjölda verðlauna frá 10-18 ára aldurs. Ég var valin íþróttakona Mosfellsbæjar, tók þátt í Ólympíuhátíð æskunnar, fór á norðurlandarmót í fimmtaþraut og fleira. Þetta var frábær tími þar sem ég þroskaðist mikið og lærði heilmargt. En ég var nánast alltaf stressuð og setti óþarfa pressu og kröfur á sjálfa mig. 
Fyrir mót leið mér eins og ég þyrfti að vinna því ég hafði jú unnið sama mót í fyrra og ég gæti alls ekki tapað núna. Eða ég hafði unnið stelpuna sem var við hliðin á mér í rásblokkinni á síðasta móti og það yrði hlegið að mér ef ég myndi tapa núna. Þessar og fleiri hugsanir voru mér ómeðvitað alltaf til staðar, og nú þegar ég er orðin eldri (og vonandi vitrari) vil ég forðast þetta neikvæða niðurbrot.

18 ára gömul hætti ég í frjálsum. Aðalega vegna þess að ég höndlaði ekki þá pressu sem ég, og aðeins ég, setti sífellt á sjálfa mig. Loksins gat ég andað léttar, borðað nammi í afmælum (af því það voru ekki lengur x-vikur í mót), farið í bíó á fimmtudegi í staðinn fyrir að mæta á æfingar og almennt bara slappað aðeins af.

Ég gat þó ekki setið hreyfingarlaus lengi og fór fljótlega í boot camp og svo þaðan í kettelbells og Mjölni þar sem ég ílengdist. 

Í Mjölni fann ég mig vel í þrek og styrktartímum þar sem mikið var unnið með ketilbjöllur og eigin líkamsþyngd. Ég gat keppt við sjálfa mig og næsta mann við hliðin á mér á æfingum en hið lýjandi mótastress sem hafði hangið yfir mér í frjálsum var ekki til staðar.
Ég prófaði fljótlega box og brazilian jiu jitsu en fann strax að þegar ég færði mig út í meiri keppnisíþróttir vaknaði stressið og pressan sem ég setti á sjálfa mig fljótt upp aftur. Ég held að það hafi verið ein meginástæða þess að ég toldi ekki lengi í íþróttunum og leitaði alltaf aftur í þrekið. 

Í ágúst á þessu ári ákvað ég að byrja æfa BJJ með öðru hugafari. Ég hafði tekið fjórar tarnir þar sem ég hafði æft sportið í nokkrar vikur til mánuði en hætt vegna þess að ef ég hafði ekki tíma til að æfa eins oft í viku og þeir metnaðarfyllstu þá gæti ég alveg eins sleppt því. Ef ég gat ekki orðið best strax gat ég alveg eins sleppt því að vera með. 

Sem betur fer áttaði ég mig á því hvað hausinn var að fara illa með mig. Í dag bý ég á Akureyri og æfi í Fenri þar sem ég mæti á æfingar með það hugafar að ég sé einungis að gera þetta fyrir sjálfa mig, til að hafa gaman af, kynnast skemmtilegu fólki og smám saman verða betri. Inn á milli munu svo dúkka upp mót sem ég get tekið þátt í en ég ætla passa mig á því að hafa gleðina alltaf í fyrirrúmi. Það er gaman að ganga vel á mótum, og uppskera eins og maður hefur sáð, en ég ætla forðast það að fara inn í keppnir með fyrirfram ákveðnar hugmyndir um það hvernig mér eigi að ganga eða hversu langt ég eigi að komast. Þetta er jú fyrst og fremst fyrir sjálfa mig og það gæti ekki skipt aðra minna máli hvar ég enda í röðinni. Ég þarf og ætla að minna sjálfa mig á þetta reglulega til að tapa mér ekki í kvíða og óþarfa stressi.


Til allra sem eiga við keppnisstress og kvíða að stríða (rím!) : Öndum djúpt, brosum og munum að það eru allir að spá í sjálfum sér. Ekki þér. Tökum þátt og höfum gaman af :) 



'Oss'


Ath. ofangreindur penni er ekki menntaður á sviði 
íþróttasálfræði og skrifar einungis út frá persónulegri reynslu.
Engin dýr voru sköðuð við ritun þessa bloggs.


Monday, October 27, 2014

BJJ - & búkhljóðin

Að æfa brazilian jiu jitsu er fáránlega gaman! Snertingin er mikil, sportið er hart en á sama tíma svo mjúkt og flæðandi. Þú kynnist æfingarfélögunum vel – og stundum jafnvel betur en þú hefðir kosið þér. Að æfa BJJ veldur því að þú verður mjööög náin fólkinu sem þú æfir með.

Hver hefur ekki lent í þessum æfingafélögum; gaurnum sem á það til að prumpa þegar einhver nær honum í side control, gæjinn sem var nýbúinn að fá sér hvítlauksbrauð, með dass af hvítlauksolíu, fyrir æfingu. Æfingafélaginn sem er búin að vera með bilaða þvottavél í 3 vikur, æfingafélaginn með síðu táneglurnar, klepraða hárið og svo lengi mætti telja.
Ég hef gerst sek um nokkra af ofantöldum hlutum. Þá sérstaklega óvelkomna prumpið. Það læðist mjög oft út. Sérstaklega þegar ég ligg í side control eða er 'mountuð', svo ef ég væri þið myndi ég helst bara láta það vera að ná mér í þessar stöður. Ég gæti prumpað á ykkur.

Elskum að æfa og fögnum hinum mannlegu búkhljóðum.


E.s. ef þvottavélin ykkar bilar megið þið alltaf koma og þvo GI-in ykkar hjá okkur Jóa. Og við eigum líka naglaklippur. Tvær meira segja.

E.e.s. Hér eru nokkrar fínar leiðir til að gera hvíta GI-ið sem er orðið hálfgrátt hvítt aftur.
http://www.bjjproblems.net

'Oss'

Thursday, October 23, 2014

Brennimerking í Fenri


Í kvöld fór fram 'brennimerking' í Fenri. Brennimerking felur í sér að iðkendur sem unnið hafa sér inn strípur eða belti eru gráðaðir upp af þjálfurum.

Tæplega 40 manns mættu á æfinguna, glímdu og fengu margir hverjir strípu eða belti.
Þrír hvítbeltingar fengu blá belti: Villi, Danni og Einar. Hrikalega flottur árangur og skemmtileg tímamót fyrir strákana. Til hamingju allir!:)

 Braveheart leikurinn í fullum gangi.
Jói og Ingþór fylgjast glöggt með.

 Bjarni á berst fyrir strípum á beltið sitt.

  Fenrisynjur 

 Hamingja

Sátt & sæl með strípurnar mínar


Frábæri Fenrishópurinn!
Öflugur hópur og enn betri mórall:)

'Oss'