Frá því að ég man eftir mér hef ég verið með mjög mikið keppnisskap.
Sem barn og unglingur æfði ég frjálsar íþróttir. Einstaklingsíþrótt þar sem auðveldlega getur lagst mikil pressa, og þar af leiðandi kvíði, á einstaklinginn.
Frjálsar lágu vel fyrir mér og ég vann til fjölda verðlauna frá 10-18 ára aldurs. Ég var valin íþróttakona Mosfellsbæjar, tók þátt í Ólympíuhátíð æskunnar, fór á norðurlandarmót í fimmtaþraut og fleira. Þetta var frábær tími þar sem ég þroskaðist mikið og lærði heilmargt. En ég var nánast alltaf stressuð og setti óþarfa pressu og kröfur á sjálfa mig.
Fyrir mót leið mér eins og ég þyrfti að vinna því ég hafði jú unnið sama mót í fyrra og ég gæti alls ekki tapað núna. Eða ég hafði unnið stelpuna sem var við hliðin á mér í rásblokkinni á síðasta móti og það yrði hlegið að mér ef ég myndi tapa núna. Þessar og fleiri hugsanir voru mér ómeðvitað alltaf til staðar, og nú þegar ég er orðin eldri (og vonandi vitrari) vil ég forðast þetta neikvæða niðurbrot.
18 ára gömul hætti ég í frjálsum. Aðalega vegna þess að ég höndlaði ekki þá pressu sem ég, og aðeins ég, setti sífellt á sjálfa mig. Loksins gat ég andað léttar, borðað nammi í afmælum (af því það voru ekki lengur x-vikur í mót), farið í bíó á fimmtudegi í staðinn fyrir að mæta á æfingar og almennt bara slappað aðeins af.
Ég gat þó ekki setið hreyfingarlaus lengi og fór fljótlega í boot camp og svo þaðan í kettelbells og Mjölni þar sem ég ílengdist.
Í Mjölni fann ég mig vel í þrek og styrktartímum þar sem mikið var unnið með ketilbjöllur og eigin líkamsþyngd. Ég gat keppt við sjálfa mig og næsta mann við hliðin á mér á æfingum en hið lýjandi mótastress sem hafði hangið yfir mér í frjálsum var ekki til staðar.
Ég prófaði fljótlega box og brazilian jiu jitsu en fann strax að þegar ég færði mig út í meiri keppnisíþróttir vaknaði stressið og pressan sem ég setti á sjálfa mig fljótt upp aftur. Ég held að það hafi verið ein meginástæða þess að ég toldi ekki lengi í íþróttunum og leitaði alltaf aftur í þrekið.
Í ágúst á þessu ári ákvað ég að byrja æfa BJJ með öðru hugafari. Ég hafði tekið fjórar tarnir þar sem ég hafði æft sportið í nokkrar vikur til mánuði en hætt vegna þess að ef ég hafði ekki tíma til að æfa eins oft í viku og þeir metnaðarfyllstu þá gæti ég alveg eins sleppt því. Ef ég gat ekki orðið best strax gat ég alveg eins sleppt því að vera með.
Sem betur fer áttaði ég mig á því hvað hausinn var að fara illa með mig. Í dag bý ég á Akureyri og æfi í Fenri þar sem ég mæti á æfingar með það hugafar að ég sé einungis að gera þetta fyrir sjálfa mig, til að hafa gaman af, kynnast skemmtilegu fólki og smám saman verða betri. Inn á milli munu svo dúkka upp mót sem ég get tekið þátt í en ég ætla passa mig á því að hafa gleðina alltaf í fyrirrúmi. Það er gaman að ganga vel á mótum, og uppskera eins og maður hefur sáð, en ég ætla forðast það að fara inn í keppnir með fyrirfram ákveðnar hugmyndir um það hvernig mér eigi að ganga eða hversu langt ég eigi að komast. Þetta er jú fyrst og fremst fyrir sjálfa mig og það gæti ekki skipt aðra minna máli hvar ég enda í röðinni. Ég þarf og ætla að minna sjálfa mig á þetta reglulega til að tapa mér ekki í kvíða og óþarfa stressi.
Til allra sem eiga við keppnisstress og kvíða að stríða (rím!) : Öndum djúpt, brosum og munum að það eru allir að spá í sjálfum sér. Ekki þér. Tökum þátt og höfum gaman af :)
'Oss'
Ath. ofangreindur penni er ekki menntaður á sviði
íþróttasálfræði og skrifar einungis út frá persónulegri reynslu.
Engin dýr voru sköðuð við ritun þessa bloggs.